Síðasta hálfa árið hef ég fengið tvo styrki til að skrifa bók sem ég hef haft á teikniborðinu um skeið. Bókin ber vinnutitilinn Hagnýt heilsuhagfræði. Áætlað er að hún verði 150-200 blaðsíður og mun hún innihalda fræðigrundaða umfjöllun um heilsuhagfræði, setta í íslenskt samhengi. Heilsuhagfræðilegt hagkvæmnismat verður kynnt, hvernig Markov-líkön eru smíðuð og hvernig gæðaár og krónur spila saman í til að mynda kostnaðarvirknihlutfalli. Sérstök áhersla verður lögð á að reyna að staðla orða- og hugtakanotkun með sérstökum orðalista. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, sem nýverið fékk framgang til prófessors við HÍ er mér innan handar sem ritstjóri.
Markhópar bókarinnar eru nokkrir, einkanlega nemendur í heilsuhagfræði (þó þeir muni fljótt þurfa að leita á náðir erlendra bóka fyrir ítarefni), nemendur í tengdum greinum svo sem lyfjafræði, og upplýstan almenning—sem er breitt hugtak og ætti vonandi að ná yfir meðal annarra starfsfólk í heilbrigðisgeiranum, fjölmiðlafólk og hagfræðinga.
Ég mun hafa fyrsta handrit tilbúið um áramótin, prufukenna í heilsuhagfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ganga í kjölfarið frá handriti til ritrýni, umbrots og útgáfu. Bókin verður gefin út í prenti og á rafrænu sniði.
Ég vil þakka Hagþenki fyrir dyggan stuðning og Viðskiptaráði fyrir sitt ríflega framlag. Nú stendur bara upp á mig að standa við stóru orðin og uppfylla væntingarnar sem ég og styrkveitendur höfum gert til verksins.